Forsíða /
Fréttir /
Fréttabréf Kviku eignastýringar í ársbyrjun 2024

Fréttabréf Kviku eignastýringar í ársbyrjun 2024

Fimmtudagur 25. janúar 2024

Innlend hlutabréf

Árið 2023

Eftir slæmt ár 2022 á innlendum hlutabréfamarkaði virtist allt stefna í hið sama á árinu 2023. Verðbólga hefur reynst þrálátari hér en erlendis og hefur Seðlabankinn þurft að hækka vexti meira. Hátt vaxtastig hafði umtalsverð neikvæð áhrif á verðþróun innlendra hlutabréfa á árinu sem var að líða en aðrir þættir lituðu einnig þróunina. Markmið stýrivaxtahækkana er að draga úr eftirspurn og fjárfestingum fyrirtækja til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. Vaxtahækkanir hafa því neikvæð áhrif á rekstur félaga auk þess sem að áhættuminni eignir (líkt og ríkisskuldabréf eða innlán) verða eftirsóttari þegar vaxtastig er hátt. Þetta sást m.a. í innlausnum úr hlutabréfasjóðum á árinu en þær námu tæpum 6 ma.kr. Óvæntir atburðir í nóvember leiddu hins vegar til umtalsverðra hækkana til loka árs.

Árið 2023 byrjaði hins vegar vel og hækkaði hlutabréfavísitalan KVIKAEQI um tæp 5% í janúar. Kjarasamningar voru nýundirritaðir og þrátt fyrir að niðurstaða þeirra hafi ekki verið eins og best var á kosið var mikilli óvissu aflétt. Væntingar um að ferðaþjónustan yrði sterk dreif hækkun flugfélaganna í janúar. En fjöldi ferðamanna ýtti einnig undir innlenda neyslu sem hafði jákvæð áhrif á afkomu smásölufélaga. Heilt yfir gekk rekstur félaga í kauphöllinni vel á árinu. Til marks um þetta má nefna að meirihluti kauphallarfélaga ákvað á aðalfundum sínum í mars að greiða út arð eða lækka hlutafé og námu heildargreiðslur um tæplega 70 ma.kr.

Stór tíðindi bárust frá höfuðstöðvum Kviku þegar bankinn óskaði eftir því við stjórn Íslandsbanka að hefja samrunaviðræður milli félaganna. Fjárfestar tóku vel í tíðindin og hækkuðu hlutabréf bankanna beggja í kjölfarið. Kvika sleit hins vegar viðræðum eftir að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerði margvíslegar athugasemdir við vinnubrögð Íslandsbanka í tengslum við sölu ríkisins á hlut í bankanum í mars 2022.

Tvö verðmætustu fyrirtæki á hlutabréfamarkaði, Alvotech og Marel, lentu í miklum skakkaföllum á vordögum. Mikil bjartsýni ríkti um líftæknifyrirtækið Alvotech eftir að félagið sótti sér um 20 ma. kr. til innlendra fagfjárfesta í upphafi ársins til að fjárfesta í frekari þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja. En þegar bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) hafnaði umsókn um markaðsleyfi fyrir hliðstæðulyfið Humira í apríl þá hrundi markaðsverðmæti félagsins um þriðjung á nokkrum dögum. Sagan endurtók sig í lok júní þegar FDA synjaði á ný umsókn Alvotech um markaðsleyfi í Bandaríkjunum. Gengi bréfa í Alvotech hækkaði þó verulega á seinni árshelmingi 2023 m.a. vegna jákvæðra frétta af þróunarstarfi og væntinga um að samþykki FDA fáist á næstu vikum.

Marel hefur eftir heimsfaraldurinn staðið í ströngu. Aukin verðbólga og hækkandi rekstrar- og fjármagnskostnaður hafa gert stjórnendum einkar erfitt fyrir að ná háleitum markmiðum sínum um 14-16% EBIT-framlegð. Um svipað leyti og bréf í Alvotech féllu skarpt í verði féll virði Marels um fjórðung á fáeinum dögum í kjölfar uppgjörs fyrir fyrsta ársfjórðung sem var undir væntingum markaðsaðila. Þegar leið á haustið jókst söluþrýstingur á bréf Marels, einkum frá erlendum hluthöfum sem höfðu auknar áhyggjur af skuldsetningu félagsins og ekki síst skuldsetningu stærsta hluthafans í Marel, Eyri Invest. Um þetta leyti höfðu bréf í félaginu ekki verið lægra metin í rúm fimm ár

Mikill viðsnúningur varð í lok nóvember á hlutabréfamarkaði þegar greint var frá því að bandaríska tæknifyrirtækið, John Bean Technologies (JBT), hefði lagt fram óskuldbindandi viljayfirlýsingu um yfirtöku á Marel. Fram kom að JBT væri tilbúið að greiða um 30% yfirverð fyrir bréf í Marel. Þessi áform mörkuðu kaflaskipti á innlendum hlutabréfamarkaði. Tilkynningin hafði ekki einungis mikil áhrif á hlutabréfaverð í Marel heldur fylgdu flestöll félög í humátt á eftir. Hlutabréfavísitalan KVIKAEQI lækkaði um 14,6% frá áramótum til þessa tímapunktar en rauk í kjölfarið upp um 17% það sem eftir var árs. Stjórn Marels hafnaði fljótlega boði JBT sem kom til baka með hærra tilboð og möguleika á tvíhliða skráningu JBT. Stjórn Marels hefur samþykkt að hefja formlegar viðræður um samruna JBT eftir að bandaríska félagið kom með uppfært og enn hærra verðtilboð.

Innlendur hlutabréfamarkaður hefur tekið miklum breytingum á liðnum árum. Félög hafa stækkað og orðið fjölbreyttari. Tvö ný félög komu inn á aðalmarkað í fyrra, námufélagið Amaroq Minerals og Ísfélagið. Amaroq Minerals stefnir að því að hefja gullvinnslu á Grænlandi í ár en félagið fékk mikinn meðbyr í fyrra og hækkuðu bréf félagsins um 53%. Mikil eftirspurn var eftir bréfum í Ísfélaginu í útboði þess í nóvember. Um 6.500 áskriftir bárust að andvirði 58 ma.kr sem samsvarar fjórfaldri eftirspurn. Origo var eina félagið sem var afskráð á árinu en fyrirtækið kvaddi kauphöllina eftir 27 ár á markaði. Þá urðu mörg stór viðskipti félaga á árinu. Hampiðjan keypti Mørenot í byrjun árs og Iceland Seafood tilkynnti í ágúst sölu á allri starfsemi í Bretlandi til Espersen en reksturinn þar hafði reynst afar þungur. Gleðitíðindi bárust þegar danska félagið Coloplast tilkynnti um yfirtökutilboð í íslenska fyrirtækinu Kerecis fyrir um 175 ma. kr. Yfirtakan hafði einkum jákvæð áhrif á gengi krónunnar.

Horfur fyrir árið 2024

Þegar horft er inn í komandi ár eru ágætar forsendur fyrir því að það gæti orðið fjárfestum hagfellt. Stærstu áhrifaþættir lúta einkum að vinnumarkaðinum og að skrifað verði undir langan kjarasamning með hóflegum launahækkunum án átaka milli samningsaðila. Hóflegar launahækkanir munu ekki einungis létta á kostnaðarhlið félaga heldur einnig minnka óvissu varðandi launaþróun og verðbólguhorfur. Þá myndu vaxtalækkanir hleypa lífi í hlutabréfamarkaðinn þar sem lægri vextir ýta undir fjárfestingu fyrirtækja. Aðrir efnahagsþættir sem munu hafa áhrif verða þróun ferðamanna og loðnukvóti.

Þrátt fyrir að enn séu ekki mörg ferðaþjónustufélög í Kauphöllinni þá hefur fjöldi ferðmanna einnig áhrif á afkomu smásölufyrirtækja og bankastarfsemi. Talið er að um fjórðungur af EBITDA afkomu sjávarútvegsfélaga komi frá loðnuveiðum og því mun niðurstaða loðnuleitar hafa mikil áhrif á sjávarútvegsfélögin.

Með stöðugleika og væntingum um vaxtalækkanir er líklegt að fjármagn leiti af innlánsreikningum og í áhættumeiri fjárfestingar öfugt við þróunina undanfarin tvö ár. Það mun hafa jákvæð áhrif á þróun hlutabréfaverðs.

Aðrir flæðisþættir, líkt og hvort íslenski hlutabréfamarkaðurinn fái inngöngu í nýmarkaðsvísitölu (e. emerging market) MSCI munu leika lykilhlutverk en íslenski markaðurinn er nú þegar í jaðarvísitölu (e. frontier) MSCI en mun fleiri vísitölusjóðir fylgja nýmarkaðsvísitölunni. MSCI er með þetta til skoðunar í vor og ef af þessu yrði myndum við sjá erlent innflæði á markaðinn í haust.

Mestu munar þó um fréttir varðandi Alvotech og Marel. Nýlega lauk úttekt Lyfja- og matvælaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) á framleiðsluaðstöðu Alvotech í Vatnsmýri og tilkynnti félagið að það ætti von á að fá samþykkt markaðsleyfi fyrir sín stærstu lyf í Bandaríkjunum.  Grænt ljós á verksmiðjuna þýðir að Alvotech geti innan skamms selt tvö lyf á bandaríska lyfjamarkaðinum en þessi lyf eru með þeim söluhæstu í heiminum og bandaríski markaðurinn sá stærsti. Sama dag og tilkynning frá Alvotech barst samþykkti stjórn Marels að hefja formlegar viðræður um samruna við JBT eftir að bandaríska félagið kom með uppfært og hærra verðtilboð. Spennandi verður að fylgjast með mögulegri yfirtöku á einu stærsta félagi landsins, en gangi allt eftir er búist við að samruni félaganna geti verið frágenginn á seinni árshelmingi 2024.

Innlend skuldabréf

Árið 2023

Hagvöxtur árið 2022 var sá mesti síðan árið 2007 en hann mældist 7,2%. Hagvöxtur var drifinn áfram af vexti einkaneyslu sem mátti að mestu rekja til aukinna útgjalda Íslendinga erlendis, en ferðatakmörkunum sem settar voru á í heimsfaraldrinum var aflétt í febrúar 2022. Á árinu 2023 átti sér stað aðlögun í átt að jafnvægi sem reyndist þó vera hægari en margir gerðu ráð fyrir í upphafi árs.

Í lok árs 2022 var skrifað undir kjarasamninga á almennum markaði. Samið var til skamms tíma, einungis eins árs, þar sem mikil óvissa ríkti m.a. um verðbólgu sem þá mældist tæp 10%. Niðurstaða samninganna var tæplega 7% launahækkun sem er umfram hækkanir sem almennt er talið að geti stuðlað að verðstöðugleika til langs tíma. Staða heimilanna var almennt mjög góð. Sparnaður sem safnaðist á tímum heimsfaraldursins var enn til staðar auk þess að umsamdar launahækkanir juku ráðstöfunartekjur heimilanna. Vöxtur einkaneyslu á fyrsta ársfjórðungi 2023 mældist 7%  og verðbólga, sem margir héldu að hefði þegar náð hámarki sínu, hélt áfram að aukast og náði hámarki í 10,2% í febrúar 2023. Líklega hefur launahækkunum og verðhækkunum á innfluttum vörum verið í meira mæli fleytt út í verðlag þar sem eftirspurn eftir vörum og þjónustu var mikil á þeim tíma. Það var að minnsta kosti einn af áhættuþáttum sem peningastefnu-nefnd Seðlabanka Íslands taldi upp í rökstuðningi sínum þegar hún hækkaði vexti um 2,75 prósentustig á fyrri árshelmingi ársins.

Krónan hafði átt undir högg að sækja á haustmánuðum 2022 en styrktist nokkuð í byrjun árs 2023. Viðvarandi halli hafði verið á viðskiptum okkar við útlönd frá því að COVID-19 faraldurinn brast á. Eftir að ferðatakmörkunum var aflétt var neysla Íslendinga fljótari að taka við sér en ferðaþjónustan og því jókst t.d. innflutningur á neysluvörum hraðar en útflutt ferðaþjónusta svo halli varð á viðskiptajöfnuði. Viðsnúningur varð vorið 2023 þegar ferðaþjónustan náði vopnum sínum og snerist þá viðskiptahalli yfir í viðskiptaafgang. Krónan styrktist nokkuð í kjölfarið. Ljóst var að árið 2023 yrði gott ferðmannaár en vangaveltur voru um hversu gott það yrði og hvort metið sem var sett árið 2018 yrði slegið. Á árinu 2023 komu 2,2 milljónir ferðamanna og vantaði því tæplega 100 þúsund farþega uppá að fyrra met yrði slegið.

Í sumar tók að hægja á innlendri eftirspurn og sást það meðal annars á kortaveltu sem dróst saman um tæp 5% milli ára á öðrum ársfjórðungi. Ljóst var að vaxtahækkanir Seðlabankans voru að hafa tilætluð áhrif, þ.e. að draga úr eftirspurn til að minnka verðbólguþrýsting. Þróun kortaveltu á árinu sýnir að aðlögunin á sér stað á öllum vöruflokkum að verslun í stórmörkuðum undanskildum sem má að öllum líkindum rekja til mikillar fólksfjölgunar sem varð á síðasta ári en mannfjöldi jókst um tæp 4% á árinu. Þrátt fyrir að hratt drægi úr innlendri eftirspurn var verðbólga mjög þrálát á árinu. Miklar launahækkanir í lok árs 2022 drógu dilk á eftir sér og ollu því að þjónustuverðbólga var treg á árinu auk þess sem að ekki hefur tekist að slökkva í öllum glæðum á húsnæðismarkaði.

Til tíðinda bar þegar Seðlabanki Íslands hækkaði ekki vexti í október og námu vextir því staðar í 9,25%. Ástæða nefndarinnar var sú að þróun efnahagsstærða hafði verið í takt við væntingar hennar og stutt liðið frá síðasta fundi. Taldi hún því betra að taka ákvörðun í nóvember þegar ný hagspá bankans lægi fyrir. Í millitíðinni hófust jarðhræringar á Reykjanesi og í ljósi þeirrar óvissu sem ríkti um efnahagsleg áhrif jarðhræringanna í nóvember ákvað nefndin að halda vöxtum óbreyttum. Krónan veiktist nokkuð í kjölfar jarðhræringanna og leituðu fjárfestar í var í verðtryggðum skuldabréfum. Hvorki Grindavíkurbær né mikilvægir innviðir eins og virkjun HS orku í Svartsengi urðu fyrir barðinu á eldgosinu í fyrra. En hremmingarnar héldu áfram árið 2024 og ríkir mikil óvissa um efnahagsleg áhrif þeirra. Það tók að létta til á skuldabréfamarkaði undir lok ársins sérstaklega eftir að verðbólga í desember mældist undir væntingum greiningaraðila. Ávöxtunarkrafa lækkaði og verð skuldabréfa hækkaði. Alls hækkaði skuldabréfavísitalan KVIKAXGOVI um 5% á árinu.

Horfur fyrir árið 2024

Á árinu 2024 munum við sjá hagkerfið leita enn frekar í jafnvægi. Mikill vilji er meðal samningsaðila um að skrifa undir kjarasamninga sem samræmast verðstöðugleika og lækkun vaxta. Jafnframt er vilji til þess að skrifa undir lengri samning sem myndi draga úr óvissu um verðbólgu næstu árin. Að því gefnu gætum við séð verðbólgu hjaðna umtalsvert er stórir mánuðir detta út úr 12-mánaða árstakti verðbólgu. Þá eru nokkrir liðir í verðbólgu sem Seðlabankinn hefur tamið sér að horfa fram hjá. T.d. vaxtakostnaður á húsnæðislán en án hans mælist verðbólga rúm 6% í stað 7,7%. Kjarnavísitala 3 er annar verðbólgu mælikvarði sem tekur út sveiflukennda liði og hún mælist 6,9% en sá mælikvarði er í markmiði ef aðeins er horft til verðbólgu undanfarna sex mánuði (á ársgrundvelli).

Samdráttur einkaneyslu mældist 1,7% á þriðja ársfjórðungi síðasta árs og varð því mikill viðsnúningur á þróun innlenda hagkerfisins á árinu. Áfram mun hægja á hagkerfinu ekki síst fyrir þær sakir að á árinu lýkur fastvaxtatímabili húsnæðislána að upphæð 250 ma. kr. Þetta eru lántakendur sem tóku húsnæðislán þegar húsnæðisvextir voru í lágmarki og munu því þurfa að greiða mun hærri vexti þegar fastvaxtatímabilinu lýkur annars eiga þeir þann kost að fara í skjól verðtryggingar og geta með því móti haldið greiðslubyrði svipaðri.

Minni verðbólga og minni spenna í hagkerfinu mun gera Seðlabankanum kleift að lækka vexti fyrir árslok 2024. Skuldabréfamarkaður er að verðleggja að vextir verði lækkaðir um 1,25 prósent á árinu en ef allt fellur með okkur er mögulegt að Seðlabankinn taki mun stærri skref.

Erlendir markaðir

Árið 2023

Alþjóðlegir fjárfestar tóku nýju ári 2023 fagnandi þar sem árið 2022 hafði verið eitt það versta á mörkuðum. Hraðasta vaxtahækkunartímabil Seðlabanka Banda-ríkjanna olli miklum verðlækkunum á skuldabréfum sem hafði svo bein áhrif á verðlagningu hlutabréfa svo erfitt var að finna skjól á verðbréfamörkuðum. Árið 2022 var hið þriðja í hundrað ára sögu bandaríska verðbréfamarkaðarins þar sem bæði hluta- og skuldabréf lækkuðu í verði.

Í byrjun árs 2023 mátti þó enn merkja áhrif af áskorunum ársins 2022. Stýrivextir í Bandaríkjunum mældust 5% og höfðu ekki verið hærri síðan árið 2007. Markmið vaxtahækkana var að ná niður verðbólgu sem hafði aukist gríðarlega hratt frá því að samkomutakmörkunum var aflétt eftir COVID-19 heimsfaraldurinn.  Verðbólga í Bandaríkjunum hafði þó minnkað umtalsvert frá því að hún náði hámarki í 9% um mitt ár 2022 og mældist rúm 6% janúar. Það er þó þrefalt verðbólgumarkmið Seðlabanka Bandaríkjanna og því ljóst að ekki væri björninn unninn. Fjárfestar voru hins vegar bjartsýnir í byrjun árs og væntingar voru um að hið versta væri yfirstaðið. Talið var að verðbólga myndi hjaðna hratt á árinu sem gæfi seðlabanka Bandaríkjanna svigrúm til þess að lækka vexti fyrir árslok. Kína aflétti samkomu-takmörkunum í janúar og voru væntingar um að það myndi hafa jákvæð áhrif á heimshagkerfið sökum stærðar Kína . Þau fyrirtæki sem höfðu lækkað hvað mest á árinu 2022 í vaxtahækkunarferlinu voru tæknifyrirtæki á borð við Nvidia, Meta (Facebook), Tesla, Amazon, Alphabet (Google) og Microsoft. En samfara væntingum um vaxtalækkanir á árinu voru þessi félög fljót að taka við sér og leiddu hækkanir á hlutabréfamörkuðum allt árið og það var ekki fyrr en síðustu mánuði ársins að markaðurinn tók að rísa heilt yfir.

Töluverður titringur var á erlendum mörkuðum í mars eftir að sextándi stærsti banki Bandaríkjanna, Silicon Valley Bank (SVB) var tekinn yfir af tryggingasjóði innistæðueigenda. Einungis rúmri viku eftir að SVB var tekinn yfir bárust fréttir af yfirtöku í Evrópu. Svissneska bankanum Credit Suisse var bjargað með yfirtöku helsta keppinautar síns, UBS. Í kjölfarið lækkuðu vaxtavæntingar markaðsaðila því markaðsaðilar töldu að  Seðlabanki Bandaríkjanna gæti ekki hækkað vexti eins mikið án þess að valda fjármálaóstöðugleika. Óróleikinn í mars dró einnig úr útlánavilja bankakerfisins og var því í raun ígildi vaxtahækkunar. Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði engu að síður vexti um 0,25 prósentur í lok mars og sýndi það að meginverkefni hans og annarra seðlabanka er að ná niður verðbólgu.

Á árinu jókst áhugi fjárfesta á gervigreind (e. artificial intelligence) og áhrif hennar á rekstur skráðra félaga. Þrátt fyrir að fjárfestar ættu erfitt með að setja fingur á það hvaða áhrif gervigreind myndi hafa á heimshagkerfið á næstu árum voru þeir fljótir að stilla upp hvaða félög yrðu fyrst til að nýta sér þróunina. Þau tæknifélög sem höfðu hækkað hvað mest þegar vaxtavæntingar hliðruðust í upphafi árs héldu áfram að hækka og voru búin að auka forskot sitt á önnur fyrirtæki umtalsvert um mitt ár. Í júní höfðu t.d. tíu stærstu félögin í S&P500 hækkað um tæp 50% í verði á sama tíma og hin 490 félögin höfðu nánast ekkert hækkað í verði.

Verðbólga hélt áfram að hjaðna er leið á árið 2023. Um mitt ár mældist hún rúm 3% og var því einungis einu prósentustigi yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Bandaríkjanna. Kjarnaverðbólga (sem undanskilur sveiflukennda liði líkt og matvörur og eldsneyti) mældist á sama tíma tæp 5% og hafði ekki minnkað jafn mikið og verðbólga. Í kjarnaverðbólgu vegur þjónusta þungt. Eftir að samkomutakmörkunum var aflétt vegna COVID-19 jókst eftirspurn eftir vinnuafli hratt sem gerði það að verkum að laun hækkuðu. Í þjónustugeirum er launakostnaður stór liður og því hefur verð á þjónustu hækkað með hærri launum. Augu seðlabanka og fjárfesta beindust í meira mæli að kjarnaverðbólgu þar sem erfitt getur verið að ná henni niður án þess að atvinnuleysi aukist. Þá breyttust væntingar fjárfesta á þann veg að verðbólga yrði þrálátari og að líklega yrðu vextir ekki lækkaðir á árinu.

Haustmánuðir einkenndust af miklum sveiflum og skoðanaskiptum. Misvísandi skilaboð var hægt að lesa úr hagtölum sem bárust sem ýmist sýndu þess merki að það væri að hægja á hagkerfinu eða að baráttan við verðbólguna yrði lengri en áður var talið. Þróttur bandaríska hagkerfisins reyndist meiri en almennt var búist við sem ýtti undir verðbólgu. Það ásamt  áhyggjum af skuldsetningu bandaríska ríkisins leiddi til þess að vextir til lengri tíma náðu nýjum hæðum í haust þegar ávöxtunarkrafa tíu ára bréfa í Bandaríkjunum fór yfir 5% í fyrsta skipti síðan 2007.

Í lok október varð mikill viðsnúningur á tíu ára kröfu í Bandaríkjunum. Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði ekki vexti í október né nóvember og gaf seðlabankastjóri Bandríkjanna í skyn að vaxtatoppinum væri mögulega náð en þar sem enn væri töluverður eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu sló hann það ekki út af borðinu að hækka vexti á ný. Markaðir tóku vel í ákvörðunina og lækkaði ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa í kjölfarið. Krafan lækkaði frá því í október og út árið um samtals 1,1 prósentustig og hækkuðu hlutabréf töluvert á sama tíma.

Orkuverð hafði mikil áhrif heimshagkerfið árið 2022 eftir innrás Rússa í Úkraínu auk þess sem  samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) drógu úr framboði á olíu árið 2022. Í september 2023 tilkynntu Sádar og Rússar að þeir myndu einnig halda framleiðslu niðri út árið. Olíutunnan hækkaði um 10% í kjölfarið en lækkaði er frá leið og er nú á svipuðum stað og fyrir tilkynninguna. Á olíumarkaði vógust á væntingar um minni eftirspurn eftir olíu sökum þess að byrjað var að hægja á heimshagkerfinu, og minna framboð framleiðenda. Í byrjun október var olíu hellt á eldinn þegar Hamas-samtökin skutu skotflaugum frá Gasa-svæðinu til Ísrael og Ísraelsher svaraði með umfangsmiklum aðgerðum. Á svæðinu er að finna stóran hluta af olíubirgðum heimsins og því ljóst að framvinda þessara átaka hefur mikil áhrif á olíuverð.

Horfur fyrir árið 2024

Greiningaraðilar skipta sér upp í tvo flokka varðandi horfur um þróun markaða á árinu 2024. Sumir telja að verðbólga muni hjaðna það hratt að hægt verði að lækka vexti áður en til efnahagssamdráttar kemur (svokölluð mjúk lending) en aðrir telja það óhjákvæmilegt að hraðasta vaxtahækkunarferli sögunnar hafi í för með sér samdrátt.  Viðnámsþróttur Bandaríkjanna í fyrra kom greiningaraðilum flestum á óvart og má líklegast rekja hann til þess að húsnæðislán þar eru með löngum afborgunartíma og hafa vaxtahækkanir því ekki haft jafn mikil áhrif og t.d. í mörgum Evrópuríkjum. Þá var framlag hins opinbera gjöfult í COVID-19 heimsfaraldrinum og mikill sparnaður sem heimilin náðu að safna sér í samkomutakmörkunum. Sá sparnaður virðist þó vera uppurinn. Staðan er önnur í Evrópu en auk vaxtahækkana hefur hækkandi orkukostnaður leikið heimilin grátt þar. Hratt hefur hægt á hagvexti í Evrópu og mældist samdráttur á þriðja ársfjórðungi ársins 2023. Þá eru mörg þróuð ríki mjög skuldsett eftir COVID-19 heimsfaraldurinn og gætu stjórnvöld þurft að fara í sársaukafullar aðgerðir til að draga úr skuldsetningu sem myndi hafa áhrif á efnahagsumsvif, hagvöxt og atvinnuleysi.

Líkur eru á að verðbólga muni nálgast markmið Seðlabanka Bandaríkjanna á árinu og því muni opnast svigrúm til þess að lækka vexti. Skuldabréfamarkaðurinn gerir ráð fyrir að vextir verði lækkaðir um 1,5 prósentustig á árinu í litlum skrefum. Hægja mun á heimshagkerfinu á næstu misserum en þó ekki með þeim hætti að atvinnuleysi muni aukast mikið eða vanskilum fjölga. Hins vegar gæti minni eftirspurn eftir húsnæði leitt til þess að húsnæðisverð lækki með samsvarandi áhrif á efnahagsreikning banka. Það mun hins vegar ekki ógna fjármálastöðugleika þar sem staða bankanna er góð eins og sannreyndist í bankakrísunni í mars í fyrra.

Erlendar hlutabréfavísitölur áttu góðu gengi að fagna í fyrra og hækkuðu umfram væntingar greiningaraðila í upphafi árs 2023 þrátt fyrir mjög hátt vaxtastig. Lækkun stýrivaxta á árinu mun að öðru óbreyttu hafa jákvæð áhrif á alþjóðleg hlutabréfaverð en óvíst er að hve miklu leyti búið er að verðleggja þessar vaxtalækkanir inn í verð hlutabréfa. Engu að síður má búast við sveiflum á hlutabréfaverði á árinu. Á árinu verða kosnir þjóðarleiðtogar margra landa t.d. Bandaríkjanna, Indlands og Taívan, sem gæti haft áhrif á samspil þjóða. Þá er enn stríð í Evrópu og óeirðir í Mið-Austurlöndum sem gætu undið upp á sig. Þróun gervigreindar skipaði stóran sess í umfjöllun á mörkuðum árið 2023 og mun líklega halda áfram inn á nýtt ár. Árið gæti varpað hulunni af því hvar áhrifin af gervigreind verða mest á nútímasamfélag og hverjir munu njóta mest ábata af henni.

Fyrirvari