Yfirlit

Sjóðir í slitaferli

Við fall viðskiptabankanna þriggja, Glitnis, Landsbanka og Kaupþings, í byrjun október 2008, varð markaður með fyrirtækjaskuldabréf og víxla óvirkur og verðmyndun engin. Skipti þar engu máli hvort um skuldabréf vel greiðslubærra fyrirtækja var um að ræða eða ekki. Af því leiddi að lokað var fyrir innlausnir í öllum peningamarkaðssjóðum, blönduðum skuldabréfasjóðum og fyrirtækjaskuldabréfasjóðum rekstrarfélaga verðbréfasjóða á Íslandi.

Fjármálaeftirlitið beindi þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða að grípa til aðgerða til að slíta peningamarkaðssjóðum sínum og tók stjórn Júpíters rekstrarfélags hf. (áður MP Sjóða hf.) ákvörðun um að slíta Peningamarkaðssjóði MP og greiða allt laust fé úr sjóðnum mánaðarlega til sjóðsfélaga þar til öllum eignum sjóðsins hefur verið ráðstafað. Einnig tók stjórn Júpíters ákvörðun um að slíta Fyrirtækjaskuldabréfasjóði MP með sambærilegum hætti. Fyllsta jafnræðis verður gætt og munu allir sjóðsfélagar fá greitt jafnt úr sjóðunum eftir því sem greiðslur berast. Júpíter hefur farið eftir tilmælum Fjármálaeftirlitsins í einu og öllu.

Peningamarkaðssjóður MP

Þann 12. desember 2014 hafði Peningamarkaðssjóður MP greitt út um 89,20% af markaðsvirði sjóðsins eins og það var þegar sjóðurinn lokaði 6. október 2008. Miðað við núverandi aðstæður er ekki hægt að gera ráð fyrir að allar kröfur sjóðsins innheimtist eða fáist greiddar á gjalddögum. Sjóðurinn hefur fært eign sína í þeim útgefendum sem talið er líklegt að greiði ekki sínar kröfur til baka niður í núll. Áætlaðar endurheimtur sjóðsins eru 89,5% miðað við markaðsvirði í október 2008. Ekki er gert ráð fyrir frekari útgreiðslum á árinu 2014, en innheimta eigna stendur enn yfir. Í ljósi útgreiðslna sem þegar hafa átt sér stað og væntra endurheimta, hefur í raun rúmlega 99% þess sem verður greitt út í heild, þegar verið greitt til eigenda sjóðsins.